Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 741 milljarð króna í árslok 2010, eða sem svarar 48,2% af landsframleiðslu samkvæmt þjóðhagsreikningum sem Hagstofa Íslands gefur út.

„Staðan versnaði um 144 milljarða króna milli ára eða 8,3% af landsframleiðslu. Líklegt er að hrein peningaleg eign hins opinbera hafi ekki mælst lakari áður sem hlutfall af landsframleiðslu," segir í Hagtíðindum.

Staðan aldrei verri

Í árslok 2010 var hrein peningaleg eignastaða ríkissjóðs og almannatrygginga neikvæð um 42% af landsframleiðslu, en hún var neikvæð um 34% af landsframleiðslu 2009 og 22% 2008. Hrein peningaleg eignastaða sveitarfélaga var neikvæð um 6,1% af landsframleiðslu í árslok 2010 samanborið við 5,7% árið 2009 og 4,2% árið 2008.

„Rétt er að vekja athygli á að Icesave-skuldbindingar eru ekki taldar með skuldum hins opinbera í árslok 2010 vegna óvissu um endanlegt uppgjör þeirra," segir í Hagtíðindum.