Uppgangur hefur verið í vexti breiðs peningamagns (M3) að undanförnu. Vöxtur breiðs peningamagns hefur verið um og yfir 10% á ársgrundvelli undanfarin misseri og mældist vöxturinn 11,4% í síðasta mánuði. Breitt peningamagn var 1.750 milljarðar króna í maí. Þetta kemur fram í nýlegum hagvísum Seðlabankans .

Peningamagn er mælikvarði á umfang fjármálstarfsemi og þau útlán sem eru útistandandi í hagkerfinu. Vöxtur peningamagns hefur reynst standa í sambandi við verðbólgu, þegar til langs tíma er litið. Ein þumalputtaregla er sú að vöxtur peningamagns sé til langs tíma jafn vexti landsframleiðslu að viðbættri verðbólgu.

Vöxturinn drifinn áfram af fyrirtækjum

Peningamagn jókst mikið í uppsveiflunni fyrir hrun og jókst sérstaklega hratt á síðustu tveimur árunum fyrir fjármálahrunið. M3 var 737 milljarðar í janúar 2007 en 1.550 milljarðar tveimur árum síðar.

M3 minnkaði nokkuð á árunum eftir hrun þar sem endurgreiðslur lána voru meiri en útgáfur nýrra lána. Síðan í upphafi árs 2013 hefur M3 hins vegar farið vaxandi. Sér í lagi hefur vöxtur útlána til fyrirtækja verið hraður undanfarin misseri.

Seðlabankinn sagði í Peningamálum sem komu út í maí að vöxtur peningamagns hafi dregist lítillega saman milli ársfjórðunga, en vöxturinn mældist 8,9% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Aukinn útlánavöxtur til fyrirtækja sé í samræmi við spár um aukna fjárfestingu atvinnuveganna. Hrein ný útlán til heimila dragist hins vegar saman vegna skuldalækkunaraðgerða ríkisstjórnarinnar.