Peningamagn í umferð jókst nokkuð sl. haust en samkvæmt tölum Seðlabankans úr bankakerfinu, sem ná til síðustu áramóta, voru tæplega 25,9 milljarðar króna í lausafé í umferð hér á landi og hefur aldrei verið meira.

Í upphafi síðasta árs voru um 20,4 milljarðar króna í umferð og jókst peningamagn í umferð því um 5,5 milljarða á árinu þó það hafi lækkað í upphafi síðasta árs. Lægst fór magn peningamagns í umferð niður í 18,4 milljarða króna í apríl í fyrra en eftir það hækkaði það nær viðstöðulaust það sem eftir lifði árs eins og sést á myndinni hér til hliðar.

Eins og sést jafnframt á myndinni hefur peningamagn í umferð aukist verulega frá síðustu mánuðum fyrir bankahrun. Þar sést peningamagn í umferð s.l. 24 mánuði og eins og sjá má var hefðbundið magn peninga í umferð á milli 11 og 13 milljarðar króna fram að hruni bankanna í október árið 2008.

Eins og sjá má á myndinni jókst magn peninga í umferð gífurlega í október 2009 eða um tæp 90% þegar magn peninga í umferð fór frá því að vera tæpir 12,6 milljarðar króna í september í það að vera um 23,7 milljarðar króna í október.

Síðan þá minnkaði peningamagn í umferð jafnt og þétt fram til apríl í fyrra eins og áður kom fram en síðan þá hefur það aukist um 36%. Þá hefur peningamagn í umferð aukist um 27% á milli ára.

Þó svo að myndin sýni aðeins þróunina síðustu tvö árin hefur verið lítið og hæg aukning á magni peninga í umferð síðustu árin. Í maí 2007 voru um 11,4 milljarðar króna í umferð hér á landi, í maí 2006 var það  um 10,3 milljarðar og í maí 2005 voru um 8,9 milljarðar króna í umferð.