Það sem liðið er af árinu hefur verðbólga reynst heldur meiri en Seðlabankinn spáði í janúar og mældist hún 7,4% á fyrsta ársfjórðungi ársins í stað 7,1% í janúarspánni.

Útlit er einnig fyrir að verðbólga verði nokkru meiri á öðrum fjórðungi, eða 7,4% í stað 6,8%.

Þetta kemur fram í peningamálum Seðlabankans sem birt voru í dag. Seðlabankinn segir meginskýringar á þrálátari verðbólgu vera m.a. meiri hækkun alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs, minni lækkun húsnæðisverðs og minni framleiðsluslaki en spáð hafði verið.

„Verðbólguvæntingar hafa hins vegar þokast niður á við, þótt þær séu enn á suma mælikvarða nokkru hærri en samræmist verðbólgumarkmiðinu,“ segir í peningamálum.

„Jafnframt er nú spáð heldur sterkara gengi krónunnar og lægri launakostnaði á framleidda einingu út þetta ár. Við þetta bætist að nú er gert ráð fyrir minni hækkunum óbeinna skatta á næstu tveimur árum þar sem afkoma hins opinbera er betri en talið var í janúar auk þess sem búist er við að skattstofnarnir verði sterkari á spátímanum.“

Seðlabankinn segir að hækkun mældrar verðbólgu vegna hækkunar neysluskatta á næstu tveimur árum verði því minni en áður hefur verið gert ráð fyrir. Á heildina litið sé því áfram talið að mikill slaki í þjóðarbúinu og tiltölulega stöðugt gengi krónunnar tryggi að verðbólga muni hjaðna í átt að verðbólgumarkmiðinu þegar líður á spátímann.

Þannig er verðbólga á þessu ári er talin verða um 6,2% en í janúarspánni var talið að hún yrði 5,6%. Á næsta ári er gert ráð fyrir að hún verði um 3% og við markmið að meðaltali 2012.