Það er fjörugur Viðskiptaþáttur sem hefst stundvíslega klukkan 16 á Útvarpi Sögu FM 99,4 í dag. Atli B. Guðmundsson, frá Greiningu Íslandsbanka, fer yfir helstu þætti nýrrar afkomuspár bankans, en samkvæmt henni verður hagnaður Landsbankans á þessu ári meiri en samanlagður hagnaður allra bankanna í fyrra.

Forstjóri Maritech International verður á línunni frá Kanada en Maritech, sem er dótturfyrirtæki Tölvumynda, hefur keypt hugbúnaðarfyrirtæki í Chile. Markmiðið með kaupunum er að styrkja stöðu Maritech í Suður-Ameríku en þar mun vera spennandi markaður, Chilebúar eru að verða jafn stórir og Norðmenn í fiskeldinu og Perú er meðal þriggja efstu þjóða heims ef horft er á landaðan afla.

Sakamál og hótelrekstur verða til umræðu í seinni hluta þáttarins. Í síðustu viku fréttist af umfangsmiklum lögregluaðgerðum í kjölfar kæru íslenskra rétthafa, en málið er sagt eitt stærsta internetmál sinnar tegundar í heiminum. Lögregla gerði húsleit hjá fjölda manns og gerði upptækar tölvur,búnað og afritað efni, en um hvað snýst þetta og hagsmunir hverra eru í húfi? Rætt verður við Hallgrím Kristinsson, framkvæmdastjóra Samtaka Myndrétthafa á Íslandi.

Við sláum síðan botninn í þáttinn með því að kynna okkur nýjungar í ferðaþjónustu og hótelrekstri, en Fosshótel-keðjan hefur tekið á leigu húsið sem Hótel Reykholt hefur verið rekið í og hyggst á vordögum opna fullbúið þemahótel, þar sem áhersla verður lögð á norræna goðafræði, klassíska tónlist og íslenskar bókmenntir. Þetta hefur aldrei verið gert áður á Íslandi og miðað við fyrstu hugmyndir þá ætla menn þarna að fara alla leið - í hótelinu verður til dæmis að finna níu heima goðafræðinnar og Askur Yggdrasils verður við hótelið og barinn verður Mímisbrunnur. Sigrún Hjartardóttir hjá Fosshótelum segir frá þessum áformum.