Gengi krónunnar hefur styrskt talsvert það sem af er degi og og er ljóst að þar skiptir mestu sala Landsbankans á 7,5% hlut sínum í sænska innheimtufyrirtækinu Intrum Justitia en hagnaður bankans af sölunni er vel á fjórða milljarð króna en bankinn fjárfesti í félaginu 2005. Heildarsalan nemur vel á 10 milljarð króna og það er fjármagnið sem er að streyma inn í íslenska hagkerfið núna.

Eftir söluna á Landsbankinn eftir 3,9% hlut í Intrum. Bréfin voru sett í söluferli í gær á verðinu 85 krónur á hlut. Það er sænska fyrirtækið Carnegie sem sér um söluna.

Intrum Justitia var skráð í kauphöllina í Stokkhólmi 12. júní 2002 og var skráningargengið 50. Segja má að skráningin hafi ekki tekist sem skyldi því félagið lenti í netniðursveiflunni auk þess sem forstjóri félagsins sagði af sér fyrirvaralaust strax í september 2002. Félagið hafði áður verið skráð í kauphöllina í London en var tekið af skrá þar. Íslensku fjárfestarnir komu inn í félagið 2005 en að því stóðu Landsbankinn og Burðarás. Intrum Justitia rak þá starfsstöðvar í um 27 löndum og þar á meðal hér.