Barack Obama Bandaríkjaforseti og fylgismenn hans söfnuðu 181 milljón dollara í september fyrir kosningabaráttu forsetans. Þetta er það mesta sem hann hefur náð að safna innan mánaðar fyrir komandi forsetakosningar. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal.

Í ágúst safnaði kosningavél Obama um 114 milljónum en Romney, forsetakandídat Repúblikana 111 milljónum. Það var það mesta sem þeir höfðu safnað innan mánaðar fyrir komandi kosningar. Ljóst er að krafturinn í fjáröflun forsetans hefur aukist töluvert en ekki liggur fyrir hve mikið Romney náði að safna í september þar sem tölurnar hafa ekki verið opinberaðar.

Peningarnir sem Obama safnaði komu frá 1,8 milljón manns samkvæmt tilkynningu úr herbúðum forsetans. Þar af voru 567 þúsund sem styrktu í fyrsta skipti. 98% af þeim gáfu 250 dollara eða minna. Þess má geta að fyrir kosningarnar árið 2008 safnaði Obama um 190 milljónum dollara í september.