Farandverkamenn frá Rómönsku-Ameríku sendu peningagreiðslur að verðmæti 62.3 milljarða Bandaríkjadala til fjölskyldna í álfunnií fyrra og hækkaði verðmæti peningasendinganna um fjórtán prósent milli ára. Þessar tölur voru teknar saman vegna ársfundar Þróunarbanka Ameríkuríkja (e. Inter-American Development Bank) sem fer fram um helgina og sýna þær að peningasendingar farandverkamanna í Bandaríkjunum til heimlanda þeirra eru orðnar ein helsta uppspretta erlendrar gjaldeyrisöflunar ríkja í álfunni. Fjórða árið í röð nam verðmæti slíkra sendinga meiru en samlögð bein erlend fjárfesting og efnahagsaðstoð til ríkja álfunnar.

Hæsta upphæðin rann til Mexíkó, eða um 23 milljarðar dala, en sjö milljarðar voru sendir til Brasilíu og fjórir til Kólumbíu. Hinsvegar skipta slíkar sendingar sköpum fyrir minni ríki í Mið-Ameríku og á Karabíska-hafinu en í sumum tilfellum nemur verðmæti þeirra um tíu prósentum af landsframleiðslu.

Don Terry, sem fylgist með slíkum greiðslum fyrir Þróunarbanka Ameríkuríkja, segir að án slíkra greiðslna frá farandverkamönnum sem eru staddir fjarri heimahögum myndu á bilinu átta til tíu milljónir fjölskyldna vera undir fátækramörkum. Hinsvegar bendir hann á að hertar aðgerðir í Bandaríkjunum gegn ólöglegum innflytjendum kunni að vera að snúa þessari þróun við. Tölur bendi til þess að þeir sem hafa starfa í Bandaríkjunum ólöglega óttist nú að senda peninga aftur heim gegnum banka og komi þeim þess í stað á áfangastað í gegnum vini og vandamenn. Þróunarbankinn hefur barist fyrir því að slíkar sendingar fari í gegnum fjármálastofnanir til þess að auka líkurnar að þeim verði veitt til smærri fyrirtækja og fjárfestinga í stað neyslu. Bankinn telur að fjórðungur allra peningasendinga sé notaður til slíks.

Um 75% allra peningasendinga farandverkamanna koma frá þeim sem starfa í Bandaríkjunum en fimmtán prósent frá Evrópu. Einnig skipta sendingar frá Japan til Brasilíu og Perú veigamiklu máli.