Síðastliðinn mánuð hefur gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hækkað um 1,9% að meðaltali. Hækkunin hefur þó verið mjög misjöfn eftir flokkum en gengi skammtíma ríkisbréfa hefur lítið hækkað eða vel innan við eitt prósent. Fjallað er um málið í skuldabréfayfirliti Capacent í dag. Þar er bent á að gengi langtíma ríkisbréfa hafi hækkað um 4,3%, sem jafngildi 66% hækkun á ársgrunni. Eru skuldabréfin sögð hegða sér eins og „skuldabréf á sterum“.

Þá er trúverðugleiki peningastefnu Seðlabankans sögð hafa fokið „líkt og trampólín á hús nágrannans.“ Stýrivextir Seðlabanka hafa hækkað um hálft prósentustig en á sama tíma hafa vextir á markaði lækkað um 1,3 prósentustig. Segir í yfirlitinu að svo virðist sem Seðlabankinn hafi misst stjórn á vaxtaskipinu tímabundið í það minnsta.