Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri lagði til á síðasta fundi peningastefnunefndar að stýrivextir yrðu lækkaðir um 1 prósentustig, úr 13% í 12,0%.

Þá bauð seðlabankastjóri öðrum meðlimum peningastefnunefndarinnar að greiða atkvæði um tillöguna. Þrír nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjórans. Hinir tveir nefndarmennirnir greiddu atkvæði með því að halda stýrivöxtum óbreyttum. Allir nefndarmenn voru sammála um að innlánsvextir skyldu verða óbreyttir, 9,5%.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar sem birt er á vef Seðlabankans í dag.

Efast um pólitíska samstöðu til niðurskurðar í ríkisfjármálum

Í fundargerð bankans kemur fram að nefndin hafi rætt endurskipulagningu bankakerfisins og þau úrræði sem nú er unnið að til að takast á við gjaldeyrisvanda bankanna. Þá var einnig fjallað um stöðu innlendra fjármálastofnana.

Þá kemur einnig fram að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi á fundinum kynnt það viðhorf sjóðsins að tryggja bæri stöðugleika gjaldmiðilsins til að koma á stöðugleika í þjóðarbúskapnum og endurreisa efnahagsreikninga, að áfram skyldi farið með gát við ráðstöfun gjaldeyrisforðans og að dregið yrði úr gjaldeyrishöftum á þann hátt að það samræmdist því að styðja við krónuna.

Þá lögðu nefndarmenn, samkvæmt fundargerðinni, höfuðáherslu á nauðsyn þess að styðja við gengi krónunnar, bæði til að stofna ekki viðkvæmum efnahagsreikningum einkaaðila í hættu, minnka þrýsting á gjaldeyrishöftin og til að stuðla að hjöðnun verðbólgu. Þannig töldu nefndarmenn að enn gætti töluverðra gengisáhrifa á vísitölu neysluverðs og að þau skýrðu hluta hækkunar hennar í maí.

„Þótt umtalsverður afgangur á vöru] og þjónustuviðskiptum við útlönd styddi við krónuna virtist afgangurinn á fyrsta fjórðungi ársins hafa verið minni en vænst hafði verið sakir halla á þjónustuviðskiptum og umtalsverðrar verðlækkunar útflutnings,“ segir í fundargerðinni.

„Vöruskiptaafgangur í apríl hafði einnig verið fremur lítill. Eins og í maí taldi peningastefnunefndin viðeigandi að samspil efnahagsaðgerða færðist í átt til aukins aðhalds í fjármálum hins opinbera og slökunar peningalegs aðhalds, að því marki sem það samrýmdist gengisstöðugleika. Fyrstu aðhaldsaðgerðir í fjármálum hins opinbera höfðu þegar verið samþykktar á Alþingi en sumir nefndarmenn höfðu áhyggjur af því að enn ríkti óvissa um hvort traust pólitísk samstaða hefði skapast um verulegan niðurskurð útgjalda.“

Beðið eftir ríkisstjórninni

Þá kemur jafnframt fram að nefndin telji að ákvörðun um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem koma til framkvæmda árið 2009 og skýr skuldbinding stjórnvalda um aðhaldsaðgerðir á árunum 2010–2012 sé grundvöllur þess að endurheimta traust markaðarins og skapa þannig svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds.

„Meginröksemdirnar fyrir því að halda vöxtum óbreyttum eða taka minna skref að þessu sinni voru þær að mikilvægt væri að viðhalda gengisstöðugleika, bæði til skemmri og miðlungs langs tíma þegar gjaldeyrishöftin væru afnumin, og að lykilvextir á markaði hefðu lækkað umtalsvert frá því snemma í maí,“ segir í fundargerðinni.

„Áður en hægt væri að lækka stýrivexti enn frekar þyrfti því að hafa tekist að styrkja forsendur gengisstöðugleika og betri árangur hafa náðst við að treysta undirstöður efnahagslífsins. Meðal annars þyrfti að liggja fyrir trúverðug og skuldbindandi áætlun um aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum á næstu misserum og tvíhliða lánasamningum og endurskipulagningu fjármálageirans að vera lokið.“

Vilja ekki senda óviðeigandi skilaboð um gengisstöðugleika

Þá kemur jafnframt fram að sumir nefndarmanna hafi lagt á það áherslu að í ljósi lágs gengis krónunnar kynni mikil lækkun stýrivaxta að gefa óviðeigandi skilaboð um það hvernig peningastefnunefndin sinnti því markmiði sínu að tryggja gengisstöðugleika og því valda frekari þrýstingi á krónuna. Þá töldu nefndarmenn mikilvægt að aukin áhersla yrði á að framfylgja gjaldeyrishöftunum.

„Einn nefndarmaður taldi að auknir möguleikar á að fara í kring um gjaldeyrishöftin væri ein helsta ástæða lækkunar gengis krónunnar í maí,“ segir í fundargerðinni.

„Nefndin skoðaði einnig forsendur þess að losa gjaldeyrishöftin og taldi að yrði það gert of snemma gæti það stefnt stöðugleika krónunnar í tvísýnu. Samþykkt aðhaldsaðgerða í opinberum fjármálum til langs tíma og endurskipulagning bankakerfisins myndu styðja við uppbyggingu efnahagslífsins og draga úr hættu á verulegri gengislækkun í kjölfar afnáms gjaldeyrishaftanna. Varfærin slökun peningalegs aðhalds í tengslum við aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum ætti að samrýmast afnámi gjaldeyrishafta án þess að stöðugleika krónunnar væri stefnt í tvísýnu. Þegar aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum til langs tíma hafa verið samþykktar, tvíhliða og marghliða lánasamningum sem styrkja gjaldeyrisforðann lokið og endurskipulagning fjármálageirans langt komin væri hægt að taka fyrstu skrefin að afnámi hafta seinna á þessu ári með því að gefa nýfjárfestingu frjálsa.“

Í ljósi ofangreindrar umræðu ræddu nefndarmenn mögulega vaxtaákvörðun á bilinu frá óbreyttum stýrivöxtum til lækkunar um 2 prósentur og lækkunar innlánsvaxta um allt að 1,25 prósentur. Líkt og fyrr segir samþykkti meirihluti nefndarinnar að lækka stýrivexti um 1 prósentu.

Hægt er að nálgast fundargerðina í heild sinni á vef Seðlabankans, sjá hér . (pdf skjal)