Þjóðhagsreikningar, sem birtir hafa verið frá síðustu vaxtaákvörðun, gefa til kynna að slaki í þjóðarbúskapnum sé heldur meiri en gert var ráð fyrir. Hins vegar er rétt að hafa í huga að fyrstu áætlanir þjóðhagsreikninga eru oft háðar töluverðri endurskoðun.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans en sem kunnugt er lækkaði nefndin stýrivexti bankans í morgun. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækkuðu um 0,5 prósentur í 3,5% og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum og á lánum gegn veði til sjö daga lækkuðu um 1 prósentu í 4,25% og 4,5%. Þá lækkuðu daglánavextir um 1,5 prósentur í 5,5%.

Nefndin segir að svo virðist sem efnahagsbatinn hafi hafist á þriðja ársfjórðungi, í samræmi við nóvemberspá bankans, en virðist vera veikari en spáð var þá. Verðbólga hefur minnkað heldur hraðar en fólst í nóvemberspánni og eru áfram horfur á að hún verði um skeið undir markmiði á næsta ári.

Þá segir nefndin að með þessari ákvörðun sé vaxtagangur Seðlabankans þrengdur um 1 prósentu í 2 prósentur. Markmiðið er að draga úr sveiflum í skammtíma markaðsvöxtum og færa einnar nætur vexti á markaði nær miðju vaxtagangsins. Aðhaldsstig peningastefnunnar minnkar því heldur minna en sem nemur lækkun miðju vaxtagangsins, að sögn peningastefnunefndarinnar.

Sjá yfirlýsinguna í heild sinni.