Þótt umtalsverður afgangur á vöru- og þjónustuviðskipum við útlönd styðji við krónuna virðist afgangurinn á fyrsta fjórðungi ársins hafa verið minni en vænst var sakir halla á þjónustuviðskiptum og umtalsverðrar verðlækkunar útflutnings.

Þetta kemur fram í rökstuðningi peningastefnunefndar Seðlabankans en nefndin ákvað sem kunnugt er að lækka stýrivexti bankans um 100 punkta í morgun, úr 13% í 12%.

Þá kemur einnig fram að Seðlabankinn hafi Seðlabankinn hefur beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði til þess að styðja við gengi krónunnar en eigi að síður hafi hreinn gjaldeyrisforði bankans aukist nokkuð sl. ársfjórðung.

„Þótt samdráttur eftirspurnar og aukið atvinnuleysi hafi dregið úr verðbólguþrýstingi, gætir enn töluverðra gengisáhrifa í hækkun vísitölu neysluverðs,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.

„Þau skýra 1,1% hækkun hennar í maí að mestu leyti.“

Þá minnir nefndin á yfirlýsingu frá því í síðasta mánuði þar sem fram kom að nefndin telji að viðeigandi að samspil efnahagsaðgerða færist í átt til aukins aðhalds í fjármálum hins opinbera og slökunar peningalegs aðhalds, að því marki sem það samrýmist gengisstöðugleika.

„Nefndin telur að ákvarðanir um aðhaldsaðgerðir sem koma til framkvæmda í ár og skýr skuldbinding stjórnvalda um aðhaldsaðgerðir á árunum 2010-2012 séu grundvöllur þess að endurheimta traust markaðarins og skapa þannig svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.

Þá segir einnig:

„Að lokum er nauðsynlegt að taka mið af afnámi gjaldeyrishafta, sem líklegt er að hefjist seint á þessu ári. Með því að gæta varúðar við slökun peningalegs aðhalds gefst færi á að afnema gjaldeyrishöftin án þess að stöðugleika krónunnar sé stefnt í tvísýnu. Þegar fyrir liggja betri upplýsingar um greiðslujöfnuð við útlönd, aðhaldsaðgerðir í opinberum fjármálum til langs tíma hafa verið samþykktar, tvíhliða- og marghliða lánasamningum sem styrkja gjaldeyrisforðann er lokið og þegar endurskipulagning fjármálageirans er langt komin verður hægt að taka fyrstu skrefin að afnámi hafta með því að gefa nýfjárfestingu frjálsa. Höft á fjármagnshreyfingar verða afnumin í áföngum sem samrýmast stöðugu gengi.“