Vilji meðal nefndarmanna peningastefnunefndar til að hækka stýrivexti kemur greiningu Íslandsbanka nokkuð spánskt fyrir sjónir, að því er segir í Morgunkorni greiningar í dag. Einn nefndarmanna vildi við síðustu vaxtaákvörðun hækka vextina um 0,25 prósentur.

„Það kemur okkur nokkuð spánskt fyrir sjónir að vilji skuli vera meðal peningastefnunefndarmanna til þess að hækka stýrivexti í því slæma árferði sem nú ríkir í þjóðarbúskapnum. Eins og vísað er til í fundargerðinni hljóðar verðbólguspá Seðlabankans upp á verðbólgu nærri 2,5% markmiðinu frá og með 2. fjórðungi næsta árs. Raunar liggur ekki fyrir hvaða vaxtaforsenda er lögð til grundvallar við þá spá, sem er afturför í upplýsingamiðlun Seðlabankans frá því sem var fyrir hrun. Samt sem áður gefur spáin vart tilefni til þess að hækka vexti að ráði í bili,“ segir í Morgunkorni.

„Auk þess er á það bent í fundargerðinni að kjarnaverðbólga, þar sem áhrif skatta, matvæla, bensíns, opinberrar þjónustu og vaxtagreiðslna húsnæðislána eru undanskilin,  mældist aðeins 1,3% í mars, og raunar var verðbólga á þann mælikvarða áfram undir markmiði Seðlabankans í apríl (1,9%).

Misvísandi mælingar á verðbólguvæntingum

Versnandi verðbólguvæntingar stjórnenda fyrirtækja í febrúar og mars, sem nefndarmenn horfðu til við ákvörðunina í apríl, voru að okkar mati að miklu leyti tilkomnar vegna veikingar krónu í upphafi árs og snarpra hrávöruverðhækkana á seinni hluta síðasta árs. Frá febrúarlokum hefur krónan hins vegar verið stöðug og hrávöruverð, að eldsneytisverði undanskildu, fremur lækkað en hitt. Það væri því ótímabært að mati okkar að bregðast við breytingum á þeim væntingum með hækkun vaxta nú. Þá virðist framangreindur nefndarmaður hafa horft fram hjá því að verðbólguvæntingar heimila lækkuðu á sama tíma og væntingar stjórnenda jukust. Auk heldur er því lítill gaumur gefinn hjá nefndarmönnum að veruleg verðhækkun neysluvöru sem til er komin vegna utanaðkomandi þátta minnkar kaupmátt almennings, hægir á efnahagsumsvifum og hefur þannig áhrif til þess að minnka eftirspurnarþrýsting, og þar með verðbólgu til meðallangs tíma litið.

Minnkar líkur á lægri stýrivöxtum

Hvað sem þessu líður má af fundargerðinni ráða að meðlimir peningastefnunefndarinnar séu býsna fljótir til að leiða hugann að hækkun vaxta þegar verðbólguhorfur versna. Vart eru nýjustu fréttir af líklegri niðurstöðu kjarasamninga til þess fallnar að auka áhuga á því að lækka vexti frekar þar á bæ. Með hliðsjón af þeim skoðunum sem fram komu í fundargerðinni, og líklegustu útkomu kjarasamninganna má því ætla að líkur séu minni en áður á að stýrivextir muni lækka frekar næsta kastið.“