Seðlabanki Íslands hefur flýtt næsta fundi peningastefnunefndar um viku en yfirlýsing um ákvörðun fundarins verður kynnt í fyrramálið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Seðlabankanum. Gera má ráð fyrir því að ástæðan fyrir breyttum fundartíma séu þrengingar í efnahagslífinu vegna Covid-19 veirunnar.

Upphaflega stóð til að næsta ákvörðun peningastefnunefndar yrði kynnt 18. mars næstkomandi en fundinum hefur verið flýtt um viku. Kynningarfundur vegna ákvörðun nefndarinnar verður klukkan tíu í fyrramálið.

Síðasta ákvörðun peningastefnunefndar var kynnt í byrjun febrúar en þá voru stýrivextir lækkaðir um 0,25 prósentustig. Standa þeir nú í 2,75%. Sagði þá að vísbendingar væru um að hagvöxtur hefði verið heldur meiri árið 2019 en áætlanir gerðu ráð fyrir en horfur samkvæmt þjóðhagsspá bankans færu versnandi.