Sem fyrr er gengisstöðugleiki skammtímamarkmið peningastefnunnar við núverandi aðstæður, þótt stöðugt verðlag sé markmið hennar til lengri tíma litið.

Það stafar einkum af því að nauðsynlegt er að verja viðkvæman efnahag heimila og fyrirtækja á tímum endurskipulagningar efnahagslífsins.

Þetta kemur fram í yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands en nefndin ákvað í morgun að lækka stýrivexti Seðlabankans um 150 punkta, úr 17% í 15,5%.

Fram kemur í rökstuðningi nefndarinnar að gengi krónunnar hefur lækkað um tæplega 9% frá 19. mars. Nefndin segir að lækkun krónunnar megi rekja til tímabundinna þátta, t.d. tiltölulega mikilla árstíðarbundinna vaxtagreiðslna af krónuskuldabréfum og innstæðum í eigu erlendra aðila.

„Þótt afgangur hafi verið á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd ríkir enn mikil óvissa um viðskiptajöfnuðinn í heild,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

„Að auki eru vísbendingar um að farið hafi verið í kringum gjaldeyrishöftin. Stjórnvöld hafa brugðist við því með breytingu á viðeigandi lögum.“

Þá telur peningastefnunefndin ólíklegt að ákvörðun hennar um að lækka stýrivexti bankans um eina prósentu hinn 19. mars hafi haft veruleg áhrif á gengi krónunnar. Sá vaxtamunur sem sé til staðar milli krónunnar og helstu gjaldmiðla ætti að gefa svigrúm til áframhaldandi hægfara slökunar peningalegs aðhalds án þess að það grafi undan stöðugleika krónunnar.

Þá kemur einnig fram að verðbólguþrýstingur er enn á undanhaldi en vísitala neysluverðs lækkaði um 0,6% milli mánaða í mars. Verðbólga nam 15,2% og hafði minnkað úr 18,6% í janúar.

Sjá nánar á vef Seðlabankans.