Meðal þeirra mála sem eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara eru mál sem tengjast peningaþvætti, að því er segir í frétt RÚV. Er þar haft eftir Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, að „þvættismómentið“ sé í tilteknum málum. Það sé skoðað sérstaklega þegar peningar fari á milli reikninga í eigu óskyldra aðila. Þegar Ólafur var inntur eftir því hvort hann væri að rannsaka peningaþvætti, mögulega í íslensku bönkunum sagði hann að sú staða gæti komið upp ef um væri að ræða flutning á ólöglegum ávinningi. Slíkt sé þvættisbrot og vakni grunur um slíkt þá sé það kannað líka.

Þá sagði Ólafur að símhleranir séu ekki lengur að gagnast embættinu sem rannsóknarúrræði í sama mæli og áður eftir að málefni símhlerana komust í hámæli. Þeir sem hlut hafi átt hafi verið svolítið grandalausir gagnvart því að úrræðið kynni hugsanlega að vera notað, en það hafi breyst eftir að fjallað var um það í fjölmiðlum.