Hagnaður breska bankans HSBC, eins stærsta banka Evrópu, dróst töluvert saman á liðnum ársfjórðungi. Ástæðan eru yfirvofandi sektargreiðslur bankans í Bandaríkjunum.

HSBC er nú búinn undir samtals 1,1 milljarðs dollar tap vegna málaferla í Bandaríkjunum. Þar hefur staðið yfir rannsókn á meintum brotum bankans á reglum um peningaþvætti og sölu bankans á ólöglegum fjármálagerningum. Umrædd fjárhæð er þó aðeins áætlun bankans á mögulegum kostnaði þar sem enn hafa engar fjársektir eða dómar komið til. Frá þessu greinir bandaríska dagblaðið The New York Times.

Málið hófst fyrr á þessu ári þegar bandarísk yfirvöld sökuðu bankann um að aðstoða viðskiptavini við peningaþvætti á fjármunum tengdum eiturlyfjastarfsemi. Breski bankinn Standard Chartered hefur þegar samið um greiðslu á 340 milljónum dollar vegna sambærilegs máls.