Tilkynningum til peningaþvættisskrifstofu Ríkislögreglustjóra fækkaði um 80 á milli áranna 2009 og 2010. Þetta kemur fram í ársskýrslu skrifstofunnar fyrir árin 2009 og 2010. Fjöldi tilkynninga um hugsanlegt peningaþvætti var 414 árið 2010 en 494 árið 2009. Upphæðir meints peningaþvættis hækkuðu hins vegar gríðarlega mikið á milli áranna tveggja, úr 725 milljónum króna árið 2009 í 2,9 milljarða árið 2010. Engin þessara tilkynninga leiddi til ákæru frá efnahagsbrotadeild.

Fram kemur í skýrslunni að bæði árin voru allar tilkynningar nema ein frá fjármálafyrirtækjum. Þá vekur athygli að langflestar tilkynningar varða upphæðir á bilinu 101-500 þúsund krónur annars vegar og ótilgreindar upphæðir hins vegar. Mikill fjöldi þeirra tilkynninga sem flokkast undir ótilgreindar upphæðir varða hugsanleg brot á gjaldeyrishöftum. Engin tilkynninganna varðaði hugsanlega fjármögnun hryðjuverka og hefur slík tilkynning aldrei borist.