Endanleg ákvörðun um hvenær Penninn verður settur í söluferli liggur ekki fyrir en áætlað er að það verði á 4. ársfjórðungi í ár eða á 1. ársfjórðungi 2012, samkvæmt skriflegu svari Arion banka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Arion banki, þá Nýji Kaupþing, tók yfir Pennann á Íslandi ehf., rekstrarfélag Pennans bókabúða, í mars 2009. Penninn hefur verið í eigu bankans síðan þá.

Eignarhald banka og skilanefnda á starfandi fyrirtækjum hefur verið gagnrýnt nokkuð eftir hrun. Nýlega sagði Kjartan Örn Egilsson, framkvæmdastjóri Egilsson ehf., í samtali við Morgunblaðið að aðstæður á markaðnum séu mjög óeðlilegar, þegar rekstur keppinauta er í skjóli banka og skilanefnda. Egilsson ehf. reka verslanir Office 1. Þeir keyptu Office 1 af þrotabúi Tékklistans, sem þeir áttu áður. Kjartan sagði við Morgunblaðið í júlí sl. að fyrirtækið hafi verið keypt í opnu ferli skiptastjórans, og átti Egilsson hæsta tilboðið.

Hann sagði ástandið, þar sem fyrirtæki eiga í samkeppni við önnur sem eru í eigu banka og skilanefnda, ekki einungis eiga við á markaði ritfanga. Fyrirtæki á nánast öllum sviðum hafi keppinauta sem sé haldið á floti, sem skapi mjög óeðlilegar aðstæður og raskar jafnvæginu.

Eymundsson
Eymundsson
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)