Penninn hefur fest kaup á helmingi hlutafjár í húsgagna-, húsbúnaðar- og gjafavöruversluninni Habitat á Íslandi. Habitat er alþjóðleg keðja verslana sem selur vandaða sérhönnun í húsbúnaði og húsgögnum. Habitat verslun hefur verið rekin um áratugaskeið hérlendis, fyrst við Laugaveg og síðar í Kringlunni, en síðustu árin í Askalind í Kópavogi. Eigendur Habitat eru þau Ingibjörg Þorvaldsdóttir og Jón Arnar Guðbrandsson, en þau hafa nú selt Pennanum helmings eignarhlut í versluninni.

Í tilkynningu vegna kaupanna segir að ekki verði ráðist í breytingar á rekstri eða stefnu Habitat nú, en í mars á næsta ári mun verslunin stækka og flytja í Holtagarða.

Terence Conran opnaði fyrstu Habitat verslunina á Fulham Road í London árið 1964.  Verslunum hefur fjölgað síðan um allan heim en sérstaða Habitat hefur alltaf verið sú að vörur og jafnvel innréttingar verslana eru sérstaklega hannaðar fyrir Habitat og enga aðra.  Núverandi eigandi Habitat keðjunnar er Ingvar Kamprad, IKEA kóngurinn, en stefna og sérstaða Habitat hefur haldist óbreytt og óskoruð allt frá upphafi og hefur verslunin ávallt notið mikilla vinsælda, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.