Stærstum hluta framkvæmdastjórnar Pennans ásamt tveimur öðrum lykilstarfsmönnum og markaðsstjóra Eymundsson var sagt upp störfum nú um mánaðamótin. Starfsreynsla umræddra aðila er samanlagt rétt yfir 100 ár. Þess utan hefur tveimur starfsmönnum í móttöku verið sagt upp störfum. Í öllum tilvikum voru gerðir starfslokasamningar við starfsmennina.

Þá hefur Jóhanna Waagfjörð, fyrrv. fjármálastjóri Baugs og Haga, verið ráðin sem framkvæmastjóri fjármála og reksturs. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Guðrún Eva Jóhannesdóttir, fjármálastjóri sérvörusviðs Haga, verði jafnframt ráðin á fjármálasvið Pennans.

Fækkun sviða

Að sögn Helga Júlíussonar, forstjóra Pennans, er um að ræða skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu. Þannig verður fækkað í framkvæmdastjórn, úr sex í fjóra, auk þess sem gerðar verði aðrar skipulagsbreytingar hjá félaginu.

„Við erum í ákveðnum hagræðingaraðgerðum og erum að fækka sviðum. Fækkun í framkvæmdastjórn er hluti af því hagræðingarferli,“ segir Helgi í samtali við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

Stærstu endurskoðunarfyrirtæki landsins högnuðust um milljarð

Fréttaskýring: Baldur Guðlaugsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri, fyrir dómi

Áreiðanleikakönnun á MP banka lokið og hluthafahópurinn að skýrast

Skapalón hefur hannað fjölsóttustu vefsíður landsins

Erlent: Olíuhækkanir ógna hagvexti

Þriðji hluti úttektar Viðskiptablaðsins á sjávarútveginum

„Markaðsstarf er 80% list og 20% vísindi,“ segir Scott Bedburry, einn virtasti markaðsmaður heims, í viðtali við Viðskiptablaðið.

Hlaðbær-Colas berst fyrir lífi sínu

Veiði: Ný lína íslenskra fluguveiðihjóla