Háttsettir bandarískir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt harðlega ákvörðun Bandaríkjastjórnar að gera ríflega 35 milljarða Bandaríkjadala samkomulag við evrópska vopna- og flugvélaframleiðandann EADS um smíði á 179 eldneytisflugvélum fyrir Bandaríkjaher.

Þetta er einn stærsti samningur sem Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, hefur gert í áratugi. Sam Brownback, öldungardeildarþingmaður Repúblikanaflokksins í Kansas, segist vera undrandi á því af hverju slíkum verkefnum sé úthýst til Evrópu í stað þess að framleiða vélarnar í Bandaríkjunum.

Í frétt Financial Times er haft eftir sérfræðingum að samningurinn sé áfall fyrir bandaríska fyrirtækið Boeing, helsta keppinaut Airbus, sem er dótturfélag EADS. Fastlega hafði verið gert ráð fyrir því að Boeing myndi hljóta hnossið.

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar þykir jafnframt til þess fallin að ýta enn frekar undir þá vaxandi tilhneigingu bandarískra stjórnmálamanna að tala fyrir verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum, samfara áhyggjum af huganlegum samdrætti í hagkerfinu.

Fram kemur í frétt Financial Times að samomulagið sé hins vegar mikill sigur fyrir EADS, ekki síst í ljósi þess að fyrir aðeins þremur árum, þegar samskipti Bush-stjórnarinnar við stjórnvöld í Evrópu voru við frostmark, hefði samkomulag af þessari stæðargráðu verið nánast óhugsandi. Gengi hlutabréfa EADS hækkuðu um tæplega 10% þegar kauphöllin í París opnaði í morgun.