Seðlabanki Evrópu tilkynnti í nótt um magnbundna íhlutun að andvirði 114.443 milljarða, en það þýðir að 750 milljörðum evra verði varið í kaup á skuldabréfum, bæði frá einkaaðilum og ríkisstjórnum. Það samsvarar tæplega 30% af heildarskuldabréfaeignum bankans nú.

Jafnframt verður víkkað út hvers konar skuldabréf bankinn má kaupa, en áætlunin sem fengið hefur skammstöfunina PEPP, kemur til viðbótar við viðbótaráætlun um kaup fyrir 120 milljarða evra sem tilkynnt var í síðustu viku. Ákvörðunin virðist þó ekki hafa dugað til að róa markaðina, og lækkuðu framvirkir samningar á S&P 500 vísitöluna um meira en 2% í fyrstu viðskiptum á asíumörkuðum.

Stjórn European Central Bank, eins og seðlabankinn heitir, tilkynnti um þetta eftir neyðarfjarfund peningastefnunefndarinnar sem hittist í gærkvöldi vegna ástandsins sem skapast hefur í hagkerfinu vegna útbreiðslu Covid 19 veirusýkingarinnar frá Wuhan borg í Kína.

PEPP stendur fyrir áætlun um neyðaruppkaup vegna heimsfaraldurs

Er ætlunin að öll þessi viðbótaruppkaup verði framkvæmd á þessu ári, en áætlunin ber skammstöfunina PEPP, sem stendur fyrir Pandemic Emergency Purchase Programme, sem íslensku gæti útleggst sem Heimsfaraldursneyðaruppkaupaverkefnið og á að standa þangað til veirufaraldurinn hefur rénað.

„Óvenjulegir tímar kalla á óvenjulegar aðgerðir,“ tísti Christine Lagarde seðlabankastjóri ECB á samfélagsmiðlinum Twitter. „Það eru engar takmarkanir á skuldbindingu okkar gagnvart evrunni. Við erum ákveðin í að nota alla getu þeirra tækja sem við höfum yfir að ráða, innan heimilda.“

Seðlabankinn hefur löngum staðið í skuldabréfauppkaupum sem hluti af áætlunum um magnbundna íhlutun til að reyna að koma auknu fjármagni í umferð því stýrivaxtatækið hefur ekki dugað til að ná upp verðbólgunni.

Nú bregður svo við hins vegar að reglurnar um hvers konar skuldabréf og eignir bankinn má kaupa hafa verið víkkaðar, þannig að kröfur um veðhlutfall hefur verið lækkað sem og hvers konar veð hægt er að miða við.

„Stjórn ECB er staðráðin í að standa við hlutverk sitt um að styðja alla borgara á evrusvæðinu í gegnum þessa einstaklega erfiðu tíma,“ segir meðal annars í yfirlýsingu bankans samkvæmt FT .

Aðgerðir Evrópska seðlabankans um magnbundna íhlutun síðustu ára hafa þegar leitt til þess að bankinn hefur safnað eignum að andvirði 2,6 billjónir evra, eða 2.600 milljarðar evra, sem er andvirði tæplega 400 þúsund milljarða íslenskra króna.

Tæplega þriðjungur eigna sem keypt hafa verið upp á 5 árum

Þar með jafnast nýja áætlunin sem á að framkvæma alla í ár tæplega 30% af heildarskuldunum sem Seðlabanki Evrópu hefur keypt síðan hann hóf að framkvæma magnbundna íhlutun í mars 2015.

Þá keypti bankinn andvirði 60 milljarða evra af skuldabréfum á hverjum mánuði fram til mars 2016, en jók þá kaupin upp í 80 milljarða á hverjum mánuði fram til mars 2017, og lækkaði þau aftur þá niður í 60 milljarða evra. Í janúar 2018 var áætlunin svo helminguð niður í 30 milljarða á mánuði, samkvæmt heimasíðu Pimco ráðgjafafyrirtækisins en samkvæmt henni átti áætlunin að klárast í lok árs 2018.

Bankinn endurræsti þó áætlunina í nóvember árið 2019, um svipað leiti og Christina Lagarde tók við stjórn bankans og hóf þá að kaupa skuldabréf fyrir 20 milljarða á mánuði, sem nú hefur verið aukið umtalsvert.