PepsiCo hefur tilkynnt að það hyggist kaupa Ísraelska fyrirtækið Sodastream fyrir 3,2 milljarða dollara, um 350 milljarða íslenskra króna.

Sodastream framleiðir vélar sem gera notendum kleift að búa til sína eigin gosdrykki. Pepsi mun kaupa öll útistandandi hlutabréf í félaginu fyrir 144 dollara á hlut, um 11% yfir markaðsvirði við lokun markaða á föstudag.

Yfirtakan hefur þegar verið samþykkt af stjórnendum beggja fyrirtækja, og er sú fyrsta síðan Indra Nooyi tilkynnti að hún hygðist hætta sem framkvæmdastjóri Pepsi eftir 12 ár í starfi. Ramon Laguarta, sem mun taka við af Nooyi í októberbyrjun, sagðist sjá fram á mikil samlegðaráhrif af yfirtökunni, samkvæmt BBC .

„PepsiCo er að finna fleiri leiðir en flöskuna til að ná til viðskitpavina,“ bætti Laguarta við, en vinsældir sykruðu drykkjanna sem gosdrykkjaframleiðandinn er þekktastur fyrir hafa farið dvínandi.

Verði yfirtakan samþykkt af yfirvöldum og hluthöfum Sodastream er gert ráð fyrir að gengið verði frá henni í upphafi næsta árs.