PepsiCo býst ekki við að fjármálakrísa í Bandaríkjunum komi niður á afkomu sinni og hyggst fjárfesta fyrir 500 milljónir Bandaríkjadala á Indlandi á næstu 3 árum.

Hátt hrávöruverð og verðbólga er þó áhyggjuefni fyrir fyrirtækið, sem framleiðir auk Pepsi ýmis konar snarl.

Hátt hrávöruverð hefur komið illa við fyrirtæki í matvælaiðnaði en PepsiCo nýtur þó góðs af því að framleiða fjölbreyttar vörur og starfa í fjölda landa.

PepsiCo hefur frá því félagið hóf starfsemi á Indlandi árið 1989 fjárfest fyrir meira en 700 milljónir dala þar í landi og reiknar með að tekjur sínar á Indlandi þrefaldist á næstu fimm árum.

Helsti keppinautur PepsiCo, Coca-Cola, treystir í síauknum mæli á sölu í nýmarkaðsríkjum á borð við Kína, Indland og Rússland, til að tryggja vöxt fyrirtækisins nú þegar hægir um á bandarískum markaði.