Tekjur bandaríska gosdrykkjaframleiðandans Pepsi Cola, jukust um 5,3% á þriðja ársfjórðungi ársins sem lauk 5. september síðastliðinn. Hagnaður félagsins nam 2,29 milljörðum dala á ársfjórðunnum, eða sem samsvarar 317 milljörðum íslenskra króna, en það er aukning um 9% frá sama tíma fyrir ári.

Félagið, sem framleiðir gosdrykki, snakk og ýmis konar matvöru, skoðar nú að fara inn á áfengismarkaðinn í kjölfar þess að aðalkeppinauturinn, Coca Cola Company tilkynnti um framleiðslu á áfengi undir merkjum Topo Chico sódavatnsins.

Þakkar fjármálastjóri félagsins, Hugh Jonston, aukna sölu því að fólk sé aftur farið á stjá eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út.
Félagið hefur nú gefið út nýja afkomuspá fyrir árið eftir að hafa fellt fyrri úr gildi í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins, en þar gerir fyrirtækið ráð fyrir að vöxtur verði um 4%.

„Fólk er farið að geta varið sig í nýju umhverfi og lifað lífi sínu,“ hefur WSJ eftir Johnston. Hann segir að nú sé hægt að gera ráð fyrir hversu mikið fólk láti faraldurinn hafa áhrif á vilja þess til að versla og fara á veitingastaði sem og að vera heima við, og þar með geti fyrirtækið spáð fyrir um kauphegðun fólks út árið.

Snakk og pönnukökuduft selst vel

Viðskipti félagsins drógust saman eftir útbreiðslu kórónuveirufaraldursins, í kjölfar þess að færri fóru að sækja veitingastaði, verslanir og bensínstöðvar, um 7 prósent á öðrum ársfjórðungi. Tekjurnar jukust hins vegar á ný á mörkuðum fyrirtækisins vestanhafs á þriðja ársfjórðungi, eða um 6%, í 5,96 milljarða dala.

Sala í verslunum og bensínstöðvum hefur þannig náð sér á strik á ný en hún er enn lág á veitingastöðum. Hins vegar hefur félagið grætt á því að fólk heldur sig meira heima við og eldar og borðar meira snakk en áður.

Dótturfélag Pepsi Co, Frito-Lay, hefur aukið sölu sína um 7%, í 4,4 milljarða dala, en annað dótturfélag, Quaker foods jók sölu sína um 6%. Meðal vara PepsiCo sem hafa selst vel eru Tostitos, pönnukökuduft og Cheetos Mac 'N Cheese snakkið.

Flókið regluverk í áfengisbransanum

Forstjóri PepsiCo, Ramon Laguarta, segir félagið nú skoða framleiðslu á áfengum drykkjum, en samkvæmt bandarískum reglum verður áfengisframleiðsla, dreifing og sala að vera í þremur aðskildum félögum.

„Að því gefnu að vera með þriggja fasa kerfi, þá er ekki augljóst hvernig hægt er að ná miklum hagnaði af framleiðslunni,“ segir Laguarta. „Svo í fyrsta lagi þarf að spyrja sig, tökum við þátt eða ekki. Í öðru lagi, sem er mjög mikilvægt, hverjir eru keppinautarnir og með hverjum vinnum við til að hámarka virði þátttöku fyrir PepsiCo.“