PepsiCo hafa samið við stærsta drykkjarvöruframleiðanda í Rússlandi um kaup á fyrirtækinu. Pepsi kaupir 75% hlut í JSC Lebedyansky, sem er sjötti stærsti drykkjarvöruframleiðandi í heimi, á 1,4 milljarða dollara.

JSC Lebedyansky hafa um 30% markaðshlutdeild í Rússlandi og tekjur félagsins á síðasta ári voru um 800 milljón dollarar.

Þetta er stærsta fjárfesting í sögu Pepsí utan Bandaríkjanna, en stórfyrirtæki hafa verið að horfa til rússneska markaðarins að undanförnu. Þannig keypti Coca-Cola helsta keppinaut JSC Lebedyansky í apríl 2005.

Í janúar á þessu ári ruddi svo Kellogg, stærsti morgunkornsframleiðandi í heimi, sér rúms á rússneska markaðnum og sagt er að Wal-Mart, stærsti smásali í heimi, horfi nú löngunaraugum á rússneskan markað.