Perla Björk Egilsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra hjá Saga Medica um áramótin. Hún tekur við af Þráni Þorvaldssyni, sem lét af störfum í tengslum við skipulagsbreytingar á fyrirtækinu. Perla gegndi áður stöðu markaðsstjóra.

Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að Perla hafi starfað hjá SagaMedica frá árinu 2008. Hún er lífefnafræðingur að mennt og hefur umtalsverða reynslu af markaðssetningu í lyfjageiranum. Þessi reynsla hennar og menntun muni nýtast SagaMedica mjög vel, en fyrirtækið lauk nýverið klínískri rannsókn á SagaPro, sem er notað við blöðruvandamálum.

Þráinn er einn af stofnendum SagaMedica og stýrði fyrirtækinu frá stofnun þess fyrir 12 árum. Hann ætlar eftir breytinguna að einbeita sér að ýmsum verkefnum, m.a. að frekari viðskiptaþróun fyrir SagaMedica á erlendum mörkuðum.

Stjórnarformaður SagaMedica er Þórður Magnússon, oft kenndur við Eyri Invest. Þórður hefur fjárfest í SagaMedica á síðustu árum og segir mikla möguleika felast í útflutningi á íslenskum náttúruvörum.

Á myndinni eru frá vinstri: Þráinn Þorvaldsson (fráfarandi framkvæmdastjóri og meðstofnandi), Sigmundur Guðbjarnason (stjórnarmaður og meðstofnandi), Hafliði Helgason (stjórnarmaður), Stefán Hrafnkelsson (stjórnarmaður), Þórður Magnússon (stjórnarformaður), Kristín Guðmundsdóttir (fjármálastjóri), Perla Björk Egilsdóttir (framkvæmdastjóri).