Guðlaugur Þór Þórðarson gagnrýnir harðlega frétttaflutning Stöðvar 2 í kvöld. Í kvöldfréttatímanum var vísað í bók Inga Freys Vilhjálmssonar blaðamanns sem ber titilinn Hamskiptin og kom út á dögunum . Í bókinni er fjallað um langtímaleigusamninga sem ríkissjóður gerði við fasteignafélög fyrir hrun. Til dæmis 25 ára óuppsegjanlegan leigusamning við Íslenska aðalverktaka um húsnæði undir heilsugæslu í verslunarmiðstöðinni Glæsibæ í Reykjavík. Í fréttinni var Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, spurður álits á því sem fram kemur í bók Inga Freys.

„Ég beið spenntur eftir að fréttamaðurinn myndi spyrja hann af hverju ríkisstjórnin hans gerði (korteri fyrir kosningar) 15 ára verðtryggðan óuppsegjanlegan samning við Reykjavíkurborg um leigu á Perlunni. Samingurinn var gerður framhjá Ríkiskaupum en það er fagstofnunin sem gerir leigusamninga fyrir ríkið. Perlusamningurinn var án útboðs. Húsnæðið hentar ekki undir starfsemi Náttúruminjasafns,‟ segir Guðlaugur Þór á fésbókarsíðu sinni.

Guðlaugur Þór furðar sig á að ekki skyldi hafa verið spurt að þessu en segist einnig hafa átt von á að Steingrímur yrði spurður út í samning vegna húsnæðis á Barónsstíg, en þar hafi ekki verið tekið lægsta tilboði og leigugreiðslurnar étið upp mögulegan sparnað af sameiningu Landlæknisembættisins og Lýðheilsustofnunar. Ekki hafi heldur verið spurt að því

„Hvers konar fréttamennska er þetta eiginlega?‟ spyr Guðlaugur Þór.