*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 28. febrúar 2018 09:52

Persónuafslætti mögulega breytt

Ríkisstjórnin býður ASÍ hækkun atvinnuleysisbóta, hærri framlög úr og í ýmsa sjóði og endurskoðun tekjuskattkerfisins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Tekjuskattkerfið verður endurskoðað með tilliti til samspils við bótakerfi fyrir tekjulægri hópa, mögulega með breytingum á fyrirkomulagi persónuafsláttar. Þetta er eitt af því sem ríkisstjórnin hefur lýst sig reiðubúna til að gera í þágu þess sem kallað er félagslegur stöðugleiki í tilefni af mati á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem fram fer í dag.

Eins og viðskiptablaðið hefur sagt frá funda formenn aðildarfélaga ASÍ um hvort segja eigi upp kjarasamningum í dag og verður niðurstaðan kunngjörð fyrir 16:00 í dag. Hafa þrjú félög lýst því yfir að þau styðji uppsögn samninga, þar á meðal VR þar sem Ragnar Þór Ingólfsson er formaður, en hann styður annað framboðið til stjórnar Eflingar, annars stærsta aðildarfélag Alþýðusambandsins.

Ríkisstjórnin hefur jafnframt lýst sig reiðubúna til að hækka atvinnuleysisbætur, hámarksgreiðslu úr ábyrgðarsjóði launa og eftir úttekt á fræðslu- og vinnustaðanámsjóðum, setja meira fé í þá ef þörf krefur að því er segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Önnur mál sem ríkisstjórnin hefur gripið til eða hyggst gera er skipun nefndar um Kjararáð sem lagði til að það yrði lagt niður. Einnig að útvíkka hlutverk þjóðhagsráðs, sem tæki þá tillit til félagslegs stöðugleika, og loks taka upp útreikning launatölfræði að norskri fyrirmynd.