Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir tengdar nýundirrituðum kjarasamningum kemur fram að lögfest verður að persónuafsláttur taki breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar á undangengnum 12 mánuðum frá desembermánuði árið áður. Persónuafsláttur mun samkvæmt þessu hækka í ársbyrjun 2012.

„Ekki eru forsendur fyrir því að breyta persónuafslætti að öðru leyti þannig að það dragi úrheildartekjum ríkissjóðs vegna tekjuskatta einstaklinga á næstunni, en á hinn bóginn hlýtur dreifing skattbyrði milli tekjuhópa sífellt að vera til skoðunar, m.a. í samráði við aðilavinnumarkaðarins, t.a.m. lækkun skatthlutfalls í lægsta skattþrepi," segir í yfirlýsingunni.

Þá segir að ekki séu uppi á þessu stigi sérstök áform um breytingar á skattlagningu launatekna fyrir árin 2012 og 2013. Stjórnvöld lýsa sig hins vegar reiðubúin til að skoða mögulega hækkun á krónutölu persónuafsláttar eða ígildi hennar í formi lækkunar skatthlutfalls í lægsta skattþrepi frá árslokum 2013, sbr. fyrirheit þar um í fyrri yfirlýsingum í tengslum við kjarasamninga.