Persónuafsláttur hækkar í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs um áramótin í samræmi við lög um tekjuskatt. Persónuafsláttur á næsta ári verður því 623.042 krónur, eða 51.920 krónur á mánuði og hækkar um 12.217 krónur milli ára.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 145.659 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð samanborið við 142.153 kr. á mánuði 2015. Hækkunin milli ára nemur 2,5%.

Skattþrepum fækkar í tvö

Skatthlutfall í lægri tveimur skattþrepunum mun lækka. Í fyrsta þrepi mun skatthlutfallið lækka um 0,18 prósentustig, úr 22,86% í 22,68%. Skatthlutfallið í öðru þrepi lækkar um 1,4 prósentustig, úr 25,3% í 23,9%. Skatthlutfallið í þriðja og efsta þrepinu helst óbreytt í 31,8%. Athygli skal vakin á því að við þetta skatthlutfall bætist við útsvar sveitarfélaga. Þrepamarkið upp í þriðja þrep mun einnig lækka í 770.000 krónur á mánuði.

Staðgreiðsluhlutfall ársins 2016 í heild, þ.e. bæði vegna tekjuskatts og útsvars verður þríþætt eftir fjárhæð tekna, þ.e. 37,13% á tekjur í fyrsta þrepi, 38,35% á tekjur í öðru þrepi og 46,25% á tekjur í þriðja þrepi.

Tekjuskattur verður lagður á í þremur þrepum í síðasta sinn á árinu 2016.

Tryggingagjald lækkar

Tryggingagjald mun lækka um áramót um 0,14 prósentustig milli ára. Eftir áramót verður skipting tryggingagjald sem hér segir:

  • Almennt tryggingagjald                                              5,90%
  • Atvinnutryggingagjald                                                1,35%
  • Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota            0,05%
  • Markaðsgjald                                                             0,05%
  • Samtals til staðgreiðslu                                         7,35%