Árleg hækkun persónuafsláttar, sem samkvæmt lögum um tekjuskatt skal nema verðbólgu síðastliðins árs, verður aukin um eitt prósentustig samkvæmt nýsamþykktu bráðabirgðaákvæði í lögunum. Því mun hækkunin í upphafi næsta árs nema 4,7%, en 12 mánaða verðbólga mælist nú 3,7%. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Persónuafsláttur einstaklinga verður því 677.358 krónur á ári, eða 56.447 krónur á mánuði, og skattleysismörk 159.174 krónur á mánuði, að teknu tilliti til lögbundinnar greiðslu í lífeyrissjóð, en þau hækka um sama hlutfall og persónuafsláttur, enda bein afleiðing hans.

Á tekjubilinu 159.174 til 261.329 greiðir launþegi útsvar, en engan tekjuskatt til ríkisins, en greiðsla hans hefst við efri mörk téðs launabils.