Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vonast til þess að hægt verði að leggja fram frumvarp um lækkun tekjuskatts næsta haust að því er Morgunblaðið greinir frá.

Meðal hugmynda sem hópur sérfræðinga sem ríkisstjórnin hefur skipað í verkefnið er að skoða mismunandi útfærslur, þar á meðal að persónuafslátturinn yrði útgreiðanlegur sem og að hann yrði látinn fjara út eftir því sem tekjur yrðu hærri.

Milton Friedman nóbelsverðlaunahafi í hagfræði er einn þeirra sem sett hafa fram hugmyndir um borgaralaun í formi neikvæðrar skattheimtu (e. negative income tax) sem væri þá útgreiðanleg upp að ákveðnu tekjumarki.

Í undirbúningsvinnunni hefur verið miðað við að ef neðra tekjuskattsþrepið yrði lækkað um 1 prósentustig, myndu tekjur ríkissjóðs dragast saman um 14 milljarða króna.

Persónuafsláttur mögulega látinn fjara út með hærri tekjum

Bjarni segir að lögð verði áhersla á að kalla eftir sjónarmiðum aðila vinnumarkaðarins um breytingarnar enda er endurskoðunin samkvæmt yfirlýsingum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna mats á kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum.

„Meðal þess sem við höfum verið að skoða er að breyta persónuafslætti. Við munum fara yfir það hvernig það kæmi út að hafa hann útgreiðanlegan og láta hann fjara út, eftir því sem tekjur eru hærri,“ segir Bjarni.

„En við ætlum líka að leggja mat á samspil bótakerfanna, allt frá húsnæðisbótum, yfir til barnabóta og vaxtabóta, við tekjuskattskerfið og persónuafslætti og sjá hvort við getum gert breytingar sem tryggja betur að við náum markmiðum okkar varðandi lægri tekjuhópana.“