Persónulegar skuldir og ábyrgðir Björgólfs Guðmundssonar eru rétt rúmlega 96 milljarðar króna. Þetta kemur fram í bréfi Björgólfs til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hann óskar eftir því að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Héraðsdómur féllst á beiðnina í morgun, eins og fram hefur komið á vef Viðskiptablaðsins, vb.is.

Björgólfur sendi fjölmiðlum rétt í þessu bréfið og tilkynningu um gjaldþrotið.

Þar segir að hreinar eignir hans hafi í upphafi árs 2008 numið um 100 milljörðum króna og að skuldir hafi numið um 35% af heildareignum. Eignirnar hafi hins vegar horfið að mestu vegna yfirtöku ríkisins á hlutabréfum hans í Landsbankanum og Straumi „og verulegrar verðmætarýrnunar annarra fyrirtækja sem hann var hluthafi í," segir í tilkynningunni.

Skuldar Landsbankanum í Lúxemborg milljarð

Í bréfinu kemur m.a. fram yfirlit yfir skuldir og persónulegar ábyrgðir Björgólfs í krónum talið miðað við 31. desember 2008.

Þar kemur fram að skuld við Landsbankann í Lúxemborg nemi tæpum milljarði. Persónuábyrgð vegna Samson ehf. nemi um 22,6 milljörðum króna, persónuábyrgð vegna Rainwood S.A. nemi um 2,3 milljörðum króna og persónuábyrgð vegna Samson Global Holdings nemi um 19,2 milljörðum króna.

Þá nemi persónuábyrgð vegna Fjárfestingarfélagsins Grettis tæpum 22 millljörðum króna, persónuábyrgð vegna Grettis eignarhaldsfélags um 27,7 milljörðum króna og persónuábyrgð vegna Ólafsfells ehf. um 478 milljónum króna.

Aðrar skuldbindingar nemi um 648 milljónum króna.

Ólíklegt að mikið fáist upp í skuldir

Í bréfinu segir Björgólfur að endanleg upphæð persónulegra ábyrgða sinna ráðist af því hversu mikið greiðist upp í kröfur umræddra félaga. „Um síðustu áramót átti ég innistæður í innlendum bönkum en þær eru nú engar, þar sem lánastofnanir hafa skuldajafnað þeim innistæðum á móti persónuábyrgðum sem getið er hér að framan," segir hann í bréfinu.

„Þá á ég í gegnum félag mitt Bell Global Investment Ltd. bankainnistæður í Landsbankanum í Luxembúrg, sem nema um 4 - 6 milljónum evra, en þar sem bankanum hefur verið lokað og engar upplýsingar þaðan að hafa, get ég ekki veitt nákvæmari upplýsingar um þær innistæður."

Hann tekur fram að hann sé skráður fyrir sumarbústað í Skorradal og að hann eigi hlutabréf í erlendum hlutafélögum. Þá segir hann í bréfinu: „Allar eignir sem ég átti í innlendum hlutafélögum hafa verið afskrifaðar."

Í sjálfri tilkynningunni til fjölmiðla um gjaldþrotið áréttar Björgólfur að heimili hans í Reykjavík sem orðið hafi fyrir árásum undanfarnar vikur hafi ætíð verið í eigu konu sinnar „en hún erfði húseignina frá foreldrum sínum sem reistu húsið fyrir röskri hálfri öld," segir í tilkynningunni.