„Mér virðist liggja í augum uppi að margir þeirra sem tala fyrir sannleiksnefnd gera það vegna þess að þeir hafa persónulegra eða pólitískra hagsmuna að gæta. Viðkomandi eru ósammála rannsóknarnefndinni og vilja rétta sinn hlut.“ Þetta segir Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Í greininni vekur Birgir athygli á að auk þeirra Ögmundar Jónssonar ráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi ráðherra, séu meðal annars þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Björgólfur Thor Björgólfsson hlynntir sannleiksnefnd. Birgir segir ýmsa hafa vakið máls á sannleiksnefnd sem öðrum valkosti við landsdóm. Þeir sem það telji færi einnig rök fyrir því að sannleiksnefnd hafi verið valkostur við sérstakan saksóknara. Þessu er Birgir ósammála og segir ljóst að rannsóknarnefnd Alþingis hafi raunar ekki verið annað en sannleiksnefnd með víðtækar rannsóknarheimildir.

„Rannsóknarnefndin fjallaði um fjölmörg mál sem vísað var til sérstaks saksóknara. Væri ekki eðlilegt að fjalla um þau mál og önnur sem saksóknarinn fjallar um í sannleiksnefnd frekar en fyrir dómstólum?“

Grein Birgis má lesa hér .