*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Erlent 22. júlí 2016 13:54

Persónuvernd aðvarar Microsoft

Yfirvöld persónuverndarmála í Frakklandi segja Microsoft vera að safna óhóflegum upplýsingum með Windows 10.

Ritstjórn
Gunnhildur Lind Photography

Persónuvernd franska ríkisins hefur sent Microsoft formlega aðvörun um að fyrirtækið hætti að safna óhóflegum upplýsingum og fylgjast með netnotkun notenda, án heimildar þeirra. Jafnframt segir nefndarformaður CNIL sem sér um persónuverndarmál, að Microsoft verði að taka nauðsynleg skref til að tryggja öryggi og persónuvernd notendagagna.

Nefndin vöruð við

Í kjölfarið á því að nýtt stýrikerfi Microsoft, Windows 10, kom á markað í júlí 2015, var persónuverndarnefndin látin vita af því að fyrirtækið væri að sanka að sér óhóflegu magni upplýsinga um notendur sína.

Í rannsókn sinni á því hvort að stýrikerfið uppfyllti frönsk persónuverndarlög kom í ljós að óhóflegt og óþörfum upplýsingum er safnað. Jafnframt séu ekki öryggisráðstafanir nægilegar til að komast inn á þjónustu fyrirtækisins á netinu. Ekki sé farið fram á samþykki notenda við að safna gögnun né til að beina auglýsingum sérstaklega að notendum miðað við notkun þeirra. Notendur séu ekki nægilega vel upplýstir um hvað sé verið að gera né sé þeim gert kleyft að neita.

Upplýsingar sendar til Bandaríkjanna

Einnig eru upplýsingarnar sendar til Bandaríkjanna á grundvelli öruggra hafna samnings sem var felldur úr gildi og dæmdur ólögmætur af Evrópudómstólnum 6. október 2015, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Af þessum sökum hefur formaður nefndar franska ríkisins um persónuvernd gefið út formlega aðvörun til Microsoft fyrirtækisins um að hlýta lögunum innan þriggja mánaða.