Búið er að loka vefnum tekjur.is þar sem nálgast mátti tekjur Íslendinga byggt á skattskrá þeirra fyrir árið 2016. Stjórn Persónuverndar telur að birting upplýsinganna sé óheimil og gerði þá kröfu að síðunni verði lokað og að öllum gögnum verði eytt.

Á vefnum segir að ákvörðun stjórnar Persónuverndar hafi komið verulega á óvart þar sem upplýsingarnar á síðunni séu þegar opinberar samkvæmt lögum og hver sem er geti nálgast þær hjá ríkisskattstjóra. „Í ákvörðuninni er algjörlega skautað framhjá þeirri staðreynd, sem og þeim lagaákvæðum sem tilgreina að útgáfa upplýsinga úr skattskrá sé heimil, í heild eða að hluta til. Stjórn Persónuverndar túlkar skattalög þannig, að eingöngu sé heimilt að gefa skattskrána út á pappír en ekki rafrænt. Þess má geta, að skattskráin telur um 6.700 síður og því er prentuð útgáfa tæpast raunhæf," segir í yfirlýsingu á forsíðu vefsins tekjur.is

Félagið telji ákvörðun stjórnar Persónuverndar í andstöðu við lög og muni skoða réttarstöðu sína, enda sé ljóst að ákvörðunin muni valda félaginu umtalsverðu fjártjóni.