ISNIC
ISNIC
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Vegna athugasemda Persónuverndar hefur verið lokað fyrir leit á vefsíðu Lögbirtingablaðsins í þeim flokkum sem varða fjárhagsmálefni einstaklinga og fyrirtækja. Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd, segir að í lögum um útgáfu Lögbirtingablaðsins sé kveðið á um að rafrænni útgáfu skal hagað þannig að komið sé í veg fyrir úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga.

Eftir sem áður er hægt að leita í Lögbirtingablaðinu eftir dagsetningum. Hingað til hefur verið hægt að slá inn nafn einstaklings eða lögaðila og kalla fram upplýsingar um aðilann sem birst hafa í Lögbirtingablaðinu. Nú hefur verið tekið fyrir það.

Þórður segir að Persónuvernd hafi fyrst bent á að leitarmöguleikar á heimasíðu Lögbirtingablaðsins væru of víðtækir í nóvember 2010. Að sögn Þórðar var meginþungi í athugasemdum Persónuverndar á upplýsingar um einstaklinga en ekki lögaðila, sem einnig er lokað fyrir leit á í ákveðnum flokkum blaðsins. Löggjöf veiti þó lögaðilum ákveðna vernd, en ekki jafn víðtæka og einstaklingar njóta.

Á heimasíðu Lögbirtingablaðsins segir að nýtt útgáfukerfi sé í smíðum. Þangað til verði tekið fyrir leit í blaðinu í auglýsingaflokkum, sem varða fjárhagsmálefni einstaklinga og fyrirtækja, nema eftir útgáfudagsetningum og útgáfutímabilum. „Nýtt útgáfukerfi verður væntanlega tekið í notkun síðar í sumar en í því mun leit einnig verða takmarkaðri en verið hefur.
Þeir flokkar sem sæta þessari takmörkuðu leit eru: Innkallanir, greiðsluaðlögun, greiðsluáskorun, nauðasamningar, nauðungarsala, skiptafundur, veðhafafundur, skiptalok, stefnur, svipting fjárræðis og kaupmáli, framhald uppboðs," segir á vef blaðsins.