Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, kom hingað til lands í síðustu viku þar sem hann var meðal ræðumanna á ársfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu. Þar fjallaði hann meðal annars um leiðir fyrir Ísland til þess að auka samkeppnishæfni sína og reynslu Svía af sambærilegum viðfangsefnum og Íslendingar þurfi nú að eiga við.

Kjaramálin vógu þyngst af þeim vandamálum sem Svíar þurftu að kljást við í forsætisráðherratíð Perssons að hans sögn. „Miklar launahækkanir höfðu átt sér stað á nokkurra ára tímabili, en það þýddi að verðbólga varð enn meiri en sem nam launahækkuninni. Raunveruleg launabreyting varð þess vegna neikvæð eða stóð í stað. Stærsti vandinn var hins vegar sá að þetta skaðaði samkeppnishæfni okkar á heimsmarkaði,“ segir Persson.

„Þegar um er að ræða svona lítið hagkerfi, eins og í tilfelli Svíþjóðar eða Íslands, þarf það að vera byggt upp með þeim hætti að aðstæður til útflutnings séu góðar; að öðrum kosti getum við ekki byggt upp auð okkar. Íslenskur efnahagur er fremur lítill og Íslendingar geta ekki framleitt allt sem þeir þurfa. Þess vegna þurfið þið að geta selt vörur til annarra landa. Ef þið eruð ekki samkeppnishæf á því sviði munuð þið tapa auðæfum ykkar og atvinnuleysi mun aukast. Við tókumst á við þessa hluti og síðustu tuttugu ár hefur þróunin verið góð að þessu leyti í Svíþjóð. Við höfum viðhaldið samkeppnishæfni okkar og á sama tíma hefur launaþróunin verið jákvæð.“

Þegar blaðamaður spyr Persson hvað Íslendingar geti gert til þess að auka framleiðni sína er ekki laust við að viðmælandinn verði ögn hneykslaður. „Ekki spyrja stjórnmálamann þessarar spurningar. Ef þú gerir það mun hann svara. Það er ekki hans verkefni. Hann tilheyrir ekki markaðnum,“ segir Persson.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .