Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, kom hingað til lands í síðustu viku þar sem hann var meðal ræðumanna á ársfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu. Þar fjallaði hann meðal annars um leiðir fyrir Ísland til þess að auka samkeppnishæfni sína og reynslu Svía af sambærilegum viðfangsefnum og Íslendingar þurfi nú að eiga við. Spurður hvort hann telji hagsmunum Íslendinga betur borgið innan Evrópusambandsins segir Persson að íslenska þjóðin þurfi sjálf að ákveða það.

„Íslenskur efnahagur er mjög sérstakur. Íslendingar eru mjög ríkir af náttúruauðlindum. Þið hafið orkuna, sjávarútveginn og ferðaþjónustuna. Orkuna getið þið nýtt til beins útflutnings eða óbeins útflutnings í gegnum stóriðju og aðra hluti – þetta er risastór auðlind. Svo hafið þið sjávarútveginn og á meðan þið hafið þá endurnýjanlegu auðlind, sem er sú stærsta sinnar tegundar á heimsvísu, eruð þið rík samkvæmt skilgreiningu. Notið það. Ferðaþjónustan felur líka í sér útflutning því ferðamenn koma með erlendan gjaldeyri til landsins. Ég held að framtíðin sé björt á Íslandi hvað þann geira varðar,“ segir Persson.

Hann segir að í grundvallaratriðum séu íslenskar efnahagshorfur afar góðar. Enginn standi hins vegar svo vel að hann geti ekki klúðrað sínum málum.

„Þess vegna verðið þið að vera varkár. Fyrst og fremst þurfið þið að horfa til þess að viðskiptajöfnuður við útlönd sé jákvæður. Svo lengi sem afgangur verður til staðar á því sviði geta Íslendingar verið bjartsýnir, því þá er landið samkeppnishæft. Meðan landið er samkeppnishæft getur það selt það sem það hefur upp á að bjóða, og Íslendingar hafa upp á ótal margt að bjóða.“

Þegar Persson er inntur eftir því hvort hann telji að Ísland eigi þá ekki að ganga í Evrópusambandið segir hann: „Ef ég held því fram þá er það mín skoðun, en ég hef ekkert um málið að segja.“ Hins vegar hafi það verið jákvætt fyrir Svíþjóð að ganga í sambandið.

„Þetta er misjafnt eftir því hvaða lönd eiga í hlut þar sem aðstæður eru alltaf mismunandi. Það eina sem ég vil segja við ykkur er þetta: verið varkár.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .