Perúskir ræktendur kókalaufsplöntunnar hafa kallað eftir því að þarlend stjórnvöld komi bændum í greininni til bjargar. Lítil hreyfing hefur verið á framleiðslu þeirra liðnar vikur sökum Covid-19 faraldursins. Sagt er frá á vef Reuters.

Sem kunnugt er er kókalaufið meðal annars nýtt til framleiðslu kókaíns. Með ferðatakmörkunum hefur það reynst glæpagengjum erfiðara að koma afurðum sínum á markað. Eftirspurning eftir laufunum hefur því fallið og verðið með. Seljast perúsk kókalauf nú á um 70% lægra verði en gengur og gerist.

Talsmaður ræktenda hefur sagt að ræktunin sjálf starfi í samræmi við lög og reglur og að langmest viðskipti með laufin séu innan ramma laganna. Þó sé viðbúið að einhverjir svartir sauðir finnist inn á milli en að greinin eigi ekki að lýða fyrir það. Stjórnvöld áætla á móti að um 90% uppskerunnar sé nýtt til fíkniefnaframleiðslu.

„Við eigum ekki séns frekar en aðrir í heiminum þessa dagana,“ er haft eftir Julían Pérez Mallqui, formanni samtaka um ræktunina.

Þótt framboðið af fíkniefnum hafi skroppið saman þýðir það ekki að eftirspurnin hafi horfið. Verð í undirheimum ytra eru því í hæstu hæðum. Í grein Reuters er vitnað í fíkniefnalögregluna í Los Angeles en hún segir þess þekkjast dæmi að kílóið af metamfetamíni hafi verið boðið til sölu á 6.400 dollara, andvirði tæplega einnar milljónar króna á gengi dagsins. Er þar á ferð þreföldun á hefðbundinni gjaldskrá götunnar sem féll úr gildi fyrir nokkrum vikum síðan.

Áætlað er að fíkniefni velti um 650 milljörðum dollara ár hvert. Þá er viðbúið að hremmingarnar nú séu aðeins tímabundnar enda hafa aðilar í geiranum einstakt lag á því að finna lausnir til að koma efnunum fram hjá laganna vörðum og í hendur neytenda.