Risafyrirtækið Walgreens Boots Alliance hefur greint frá því að Stefano Pessina verði forstjóri þess. Pessina gegndi starfinu til bráðabirgða eftir að þessi stærstu apótek Bandaríkjanna og Bretlands sameinuðust í einn stærsta lyfjakaupanda heims.

Fyrirtækið birti einnig ársfjórðungsuppgjör í dag og var það langt framar vonum greiningaraðila á bandarískum fjármálamörkuðum.

Pessina, sem er 73 ára gamall, var stjórnarformaður Alliance Boots áður en fyrirtækið sameinaðist Walgreens. Þeir síðarnefndu kláruðu yfirtökuna þegar þeir borguðu 16 milljarða Bandaríkjadala fyrir þá hluti í Alliance Boots sem þeir áttu ekki nú þegar.

Hið sameinaða risafyrirtæki rekur meira en 13,200 verslanir í 11 löndum og er auk þess með 350 dreifingarstöðvar.

Pessina hafði gegnt starfi forstjóra til bráðabirgða eftir að Greg Wasson, þáverandi forstjóri Walgreens, sagði starfi sínu lausu í kjölfar samrunans.