Pétri Einarssyni, forstjóra Straums fjárfestingarbanka, hefur verið meinað að sitja í stjórnum fyrirtækja eða stýra fyrirtæki í Bretlandi næstu fimm árin vegna vangoldinna skatta þar í landi. Pétur var framkvæmdastjóri breska ráðgjafafyrirtækisins Cbridge Limited, sem nú er gjaldþrota.  Fyrirtækið sérhæfði sig í ráðgjöf til flugfélaga og fyrirtækja í flugrekstri og sá um sölusamninga.

Bloomberg-fréttaveitan segir að Pétur hafi fengið rúmlega 100 þúsund pund hjá fyrirtækinu til að halda uppi lífsstíl sínum, eins og tekið er til orða. Þetta gera um 19 milljónir íslenskra króna. Á sama tíma hafi fyrirtækið sem hann stýrði ekki greitt skatt. Ráðgjafafyrirtækið varð gjaldþrota í júní árið 2010 og skuldaði þá rétt um 200 þúsund pund í skatt. Það gera um 25 milljónir íslenskra króna.

Telur úrskurðinn harkalegan

Það er ríkisstofnunin Insolvency Service sem kvað upp úrskurðinn. Stofnunin hefur með gjaldþrot fyrirtækja í Bretlandi að gera. Ríkisstofnunin segir í tilkynningu um málið að Cbridge Limited hafi verið skráð í miðborg London. Pétur hafi hins vegar sinnt vinnunni frá heimili sínu í Fulham.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Mark Bruce, yfirrannsakanda hjá Insolvency Service, að ekki megi una við hátterni á borð við það sem Pétri er gefið að sök og verði að senda þau skilaboð til stjórnenda fyrirtækja að þeir sem gerast uppvísir um slíkt verði haldið frá viðskiptalífinu.

Pétur segir í samtali við Bloomberg ákvörðunina ótrúlega harkalega og rökin haldlaus. Hann segist sjálfur hafa tapað sem svari til milljón dala, jafnvirði meira en 120 milljóna króna, þegar rekstur Cbridge fór í þrot. „Enginn tapaði meiru en ég,“ segir hann.