Verð á hlutabréfum í kínverska olíufélaginu PetroChina þrefölduðust á markaði í Shanghæ í dag, fyrsta viðskiptadag félagsins. Þar með er PetroChina orðið verðmesta olíufélag í heimi að sögn Bloomberg og BBC.  Fyrirtækið er einnig fyrsta fyrirtæki í veröldinni sem er meira virði en 1 þúsund milljarðar bandaríkjadala eða um 60 þúsund milljarðar íslenskar sem er hærra mat en á öllum rússneska verðbréfamarkaðinum eins og hann leggur sig. Að sögn flestra sérfræðinga er matið á fyrirtækinu allt of hátt.

Í nýlegu frumútboði voru bréf PetroChina seld á 16,7 yuan en voru rétt tæp 44 yuan við lokun markaðar í  Shanghæ í dag. Verð fyrirtækisins er þar með orðið hærra  markaði en Exxon Mobil og  General Electric til samans. Hlutabréf í Petro China eru í dag fjórum sinnum hærri en bréf í Exxon þrátt fyrir á velta PetroChina sé aðeins fjórðungur af Exxon Mobil.

Í upphafi ársins var kínverski hlutabréfamarkaðurinn metinn á tæpa 1 þúsund milljarða bandaríkjadali en það sem af er árinu hefur markaðurinn þrefaldast og í dag eru fimm af tíu stærstu fyrirtækjum í heimi kínversk. Kínverski hlutabréfamarkaðurinn er í dag sá þriðji stærsti í heimi.