Við Kiddi Vill vorum á krossgötum, reksturinn hjá honum fór ekki alveg nógu vel og ég var orðinn gamall og lúinn og hættur í fótbolta. Við vorum því atvinnulausir og vorum að hugsa hvað skipti okkur máli. Við áttuðum okkur fljótt á því að bjór og vín skipti okkur máli og einhverskonar tónlist. Því fór svo að við opnuðum Kex hostel. Þetta sagði Pétur Marteinsson, stofnandi og eigandi Kex hostel, á fundi Arion banka í gær um hugverkavernd.

Pétur sagðist sjálfur aldrei hafa farið sjálfur inn á hostel sem vakti upp hlátur fundargesta. Hinsvegar hafi hann fengið mikið af góðu fólki til liðs við þá félaga. Í húsinu voru pípulagnirnar á einum vegg og það var of dýrt að setja klósett í öll herbergi og því hafi verið best að hafa klósettin öll meðfram veggnum og herbergin hinumegin, þannig hafi hostelið myndast. Síðan hafi mikil vinna farið í að huga að smáatriðunum og það að velja leturgerð hafi tekið mikinn tíma. Á fundinum ítrekaði hann hversu miklu máli frumleiki og hönnun skipti til að skera sig úr.