Pétur Blöndal alþingismaður sagði í umræðu um hlutafélög og einkahlutafélög á Alþingi að 70 þúsund Íslendingar hefðu tapað á hruni hlutabréfamarkaðarins. Hann sagðist telja að meðaltap einstaklinga væri á milli þrjár til fjórar milljónir króna.

Pétur gagnrýndi harðlega þau vinnubrögð sem hefðu tíðkast á hlutabréfamarkaði þar sem stærri hluthafar hefðu holað félögin að innan.

Pétur sagði að það hefðu þeir gert með því að lána sjálfum sér og kaupa í sjálfum sér og nefndi sérstaklega viðskipti í kringum Exista í því sambandi. Pétur gagnrýndi harðlega hvernig menn hefðu hagað sér og sagði að mikið verk væri framundan við að byggja upp traust á markaði og það yrði að gera áður en menn gætu vænst þess að virkur hlutabréfamarkaður risi upp hér aftur.