Pétur H. Blöndal segir að lög sem samþykkt voru á Alþingi 1997, sem heimiluðu lán frá fjármálafyrirtækjum til starfsmanna þeirra til kaupa á bréfum í fyrirtækjum sjálfum, hafi runnið í gegnum þingið gagnrýnislaust. Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag segir hann þessi lög hafa verið "gjörsamlega með ólíkindum." Hann baðst á dögunum afsökunar á því að hafa skrifað undir nefndarálit varðandi þessi lög og ekki gagnrýnt þau þegar þau voru til umræðu á þinginu.

Í viðtalinu segir Pétur m.a.:

"Árið 1997 runnu t.d. í gegnum þingið án umræðu lög sem Finnur Ingólfsson, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir. Um var að ræða lagabreytingu að kröfu EFTA. Þessi lög heimiluðu hlutafélögum og einkahlutafélögum að lána starfsmönnumsínum  til  að kaupa hlutabréf í fyrirtækjunum. Ekki nóg með það heldur fólst einnig í lögunum heimild til þess að lána aðilum, sem töldust vera tengdir starfsmönnunum , fé til þess að kaupa hlutabréf í bönkunum, t.d. einkahlutafélögum þeirra. Þessi lán, sem notuð voru til þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækjunum, voru bókfærð sem eignir og eigið fé óx sem nam lánunum en  hlutaféð telst ekki til skuldar. Þetta er allt gjörsamlega með ólíkindum og ótrúlegt að erlendu lánveitendur bankanna, matsfyrirtækin og eftirlitsaðilar hafi ekki gert neinar athugasemdir við þetta. Ég baðst afsökunar á því fyrir skemmstu að hafa skrifað undir nefndarálit án athugasemda og ekki gagnrýnt þetta þegar þessi lög voru samþykkt á Alþingi 1997 en það tók enginn fjölmiðill eftir því.. Undir þetta sama nefndarálit skrifaði líka Steingrímur J. Sigfússon, sem þá var í stjórnarandstöðu."

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .