Pétur Einarsson, forstjóri Straums, segir að helstu hindranirnar, sem séu í veginum fyrir því að Íslendingar nýti þau tækifæri sem til staðar eru, séu huglægar. „Við erum svo föst í því að hér sé kreppa og allt ómögulegt. Auðvitað er umhverfið ekki auð-velt. Umhverfið í heiminum er mjög erfitt. Það eru ekki bara gjaldeyrishöft hérna, heldur líka ákveðin stjórnsýsluhöft og efnahagshöft. Við erum með bankakerfi sem ekki er búið að leysa úr, því ekki er búið að endurskipuleggja viðskiptabankana.

Þeir eru ennþá í þessu slitaferli og eru í óbeinni eigu kröfuhafa. Þar er margt sem á eftir að gera upp og ganga frá. Bankakerfið er líka ennþá allt of stórt og dýrt. Þetta er vissulega ákveðin hindrun. Þrátt fyrir þessar hindranir held ég samt að við munum komast út úr þessu, því grundvallaratriðin eru svo sterk.

Það að við erum aðeins 300 þúsund talsins er ákveðinn veikleiki en það þýðir líka að það þarf svo lítið til að auka almenna velsæld, ef við vinnum saman. Það er hins vegar annar stór galli við okkur, en það eru flokkadrættir og skortur á samvinnu. Það er endalaus valdabarátta í þjóðfélaginu í gegnum flokkana eða aðra hópa, hvaða nafni sem þeir nefnast, og það kostar okkur mjög mikið. Þegar við sjáum að það er nóg til handa öllum og við þurfum ekki að vera að ræna þessu hvert af öðru getum við farið að vinna að almennri velsæld. Það gerist þegar við getum bara horft á þetta eins og eina stóra köku og við vinnum saman að því að stækka hana og þar með sneið hvers og eins.“

Pétur ræðir nánar um framtíðarhorfur á Íslandi og fjármálageirann í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.