Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að allt Evrópusambandið hafi kúgað Íslendinga til að semja um Icesave-reikningana. Þetta sagði hann í umræðum á Alþingi í dag um lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslendinga.

Umræðurnar standa nú yfir á Alþingi.

Pétur sagði að sá ótrúlegi dráttur sem orðið hefði á afgreiðslu láns IMF til Íslendinga hefði valdið gífurlegu tjóni. Afgreiðsla sjóðsins á lánsumsókn hefði dregist vegna þess að þrýst hefði verið á samkomulag vegna Icesave-reikninganna. Að halda öðru fram, væri bara brandari.

„Menn voru að kúga Ísland og allt Evrópusambandið stóð að því að kúga Ísland til að semja um Icesave-reikningana," sagði þingmaðurinn og bætti við: „Og svo vilja sumir ganga inn í þetta ágæta Evrópusamband til þessara svokölluðu vina okkar."

Hann sagði að Ísland lægi vel við höggi því það væri svo lítið.